Einkunn, þjóðerniskennd, veikindi og já frjádagur á ný...

Hæ gott fólk.

Sko, fór í próf fyrir viku og mér gekk ekkert of vel. Reyndar var ég alveg hrikalega "ligeglad" fyrir þetta próf og það er nú ekki gott. Alla vegana, ég bjóst alveg eins við því að fá falleinkunn, en svo fór nú ekki og ég fékk 7 í einkunn. Ég er sáttur miðað við það sem ég lagði í þetta og líka var það pínu næs að vera hærri en sá sem fór í prófið á sama tíma og ég, því hann var nú bara frekar sáttari við prófið en ég. Ég lít á það sem ákveðin stimpil að vera lægri en hann. Sem betur fer les hann ekki íslensku. Kannski var þetta ekki fallega sagt. Jæja, nóg um það ég náði og það er fyrir öllu. Ég er bara með alveg prýðilegar einkunnir úr þessu námi og meðaleinkun alveg þokkaleg.
Nú er bara smá "hyggeopgave", eins og ein vinkona mín kallar þetta, eftir og skilast 2. júní. Ég er svona að komast í gang með það "stille og rolig".

Alexander kom heim í gær og var hrikalega flott málaður og ekki laust við að þjóðerniskenndin hafi blossað upp:




Hrikalega flottur er það ekki?

Ég er búinn að hafa krílin hjá mér alla þessa vikuna og það er bara ljúft, en þó bregður skugga á þetta því Dísa hefur verið ansi lasin síðan á miðvikudag, raunar þriðjudag, því ég sótti hana í skólann þá. Magapína er að kvelja hana og svo stöku sinnum hiti. Í gær var hún þrælhress, þar til hún átti að fara að sofa þá tók þetta sig upp aftur. Hún einmitt sefur núna í þessum töluðu orðum, klukkan er rúmlega 17 og það sýnir að hún er hreinlega veik.
Svo í gærkvöldi, eða öllu heldur klukkan 3 í nótt vaknaði ég við það að Alexander greyjið kallaði á mig. Hann var búinn að kasta allhressilega upp og svo aftur örlítið síðar um nóttina. Hann er búinn að vera ægilega lasinn í dag. Ég hreinlega býst fastlega við því að Matthías verði lasinn, en ennþá sem komið er þá er hann á sama 110% kraftinum og hress að vanda. Frábært að taka hann með í Bilka áðan og hann vakti þvílíka athygli. Hann þjáist ekki af feimni blessaður.

Já, það er kominn frjádagur á ný, minnir mig á góðan brandara á ensku: "Only Robinson Crusoe had everything done by Friday!"
Þessi föstudagur er jú litaður af því að börnin eru veik, en auðvitað munum við taka Disney sjóið fyrir ásamt einhverjum skemmtiþætti á eftir "Scene er din" sem er í uppáhaldi hjá Alexander. Ég vona að þau fái að njóta.

Næstkomandi þriðjudag kem ég svo á klakann á ný og ég hlakka geðveikt til. Vona að ég verði boðinn í smá lamb, má vera frampartur :), eða fisk og þar er saltfiskur einhvern vegin efst í huga. En umfram allt verður bara frábært að sjá gengið allt saman á ný. Ég fæ að gista hjá pabba og hlakka mikið til að kynnast kaffivélinni á svæðinu. Er eiginlega mjög spenntur. Þarf líklega að bæta þeim það svo upp því ég er einn mest kaffisvelgur hérna megin og hinu megin Dónár.

Ég er á fullu þessa dagana að leita mér að vinnu og það er satt best að segja margt í boði og ég held að ég muni finna eitthvað við hæfi, en það samt kemur í ljós. Tungumálið gæti orðið vandamál sum staðar. Þetta kemur allt saman í ljós.

Mér til mikillar gleði í gær þá varð Keflavík deildarmeistari í körfubolta eftir að hafa lagt Njarðvík að velli. Frekar ljúft og vonandi að þeir klári úrslitakeppnina líka, en þar hafa þeir heimaleikjarétt út keppnina og þar hafa þeir ekki tapað í deildinni í vetur. Lítur vel út, en sjáum hvað setur. Vona að ég nái kannski einum leik þegar ég kem heim.

Svo verð ég nú að minnast á það að ég verslaði mér tölvu á netinu hjá www.dell.dk þar sem tölvan mín er svona að koma á tíma og ég hreinlega þori ekki að taka sénsinn lengur. Það gleðilega við þessi kaup er að ég fékk um 3000 króna afslátt (danskar krónur) og vélin kostar 8400 danskar krónur og þar með er 19 tommu flatur skjár og frekar öflug vél að auki. Mér til gamans kíkti ég á verða á sambærilegri vél hjá www.ejs.is heima og þar er verðið rétt um 200 þús íslenskar og þó vantar ennþá í hana eitthvað sem ég mun fá. Reyndar verð ég nú að gefa þeim það að skjárinn er á svipuðu verði og hér, en þá eru menn nú að fá duglega fyrir tölvuna.
En að versla á netinu er bara hrein snilld og maður er hiklaust að spara á þennan hátt. Dell er orðið mjög framalega í þessu, bæði hvað varða gæði og verð.

Já, þá eru þessu lokið í bili og ég hlakka til að sjá sum ykkar á klakanum eftir örfáa daga!!!

hafið það sem best og sjáumst síðar,

Arnar Thor súperhjúkka

Ummæli

Sif sagði…
stopparðu e-ð í köben á út eða innleið? Það væri gaman að sjá þig :)
Arnar Thor sagði…
Hmm, sko stoppa hjá vinum mínum í Roskilde á útleið, en veit ekki með heimleiðina. Man satt að segja ekki hvenær á flug tilbaka. Ég verð í bandi.

Arnar Thor
Nafnlaus sagði…
Til hamingju með nýju tölvuna gamli minn, það verður gaman fyrir þig að koma heim, þú veist að þú ert alltaf velkominn hingað og í Hraunbæinn. Gott að heyra af þér, þú stendur þig vel í skólanum. Ekki skemmtilegt þegar börnin taka upp á því að fá pestir hvert á eftir öðru ojojoj. Skemmtu þér vel í ferðinni minn ágæti mágur (í mínum augum verður þú alltaf mágur minn), bestu kveðjur frá mér og mínum og hvutunum auðvitað! :-D
Arnar Thor sagði…
Takk Ásrún og þú verður alltaf mágkona mín.

Maður kíkir nú kannski í Hraunbæinn í mýflugumynd.

kv.

Arnar Thor
Nafnlaus sagði…
Blessaður og takk fyrir síðast bara skemmtilegt,en já námskeiðinu lauk með ferlega skemmtilegu geymi í gær svo að ég er á heimleið í dag.En ég vona að þú skemmtir þér vel hérna á klakanum og mundu eftir Jolly-cola hehehe kv Flísteppaskvísan

Vinsælar færslur